|
 |
News |
 |
 |
|
Vel heppnað ættarmót
16-07-2002
Ættarmót Höfðabrekkuættar var haldið helgina 12. - 14. júlí 2002 að Árhúsum við Hellu.
Flestir þátttakenda komu á svæðið á föstudagskvöld. Eftir að hafa komið sér fyrir, var safnast saman utandyra, þar sem garðstólum hafði verið raðað upp framan við smáhýsin. Þar var spjallað og skrafað fram eftir kvöldi; sumir með bjórdós í hendi.
Ættarmótið var síðan sett á morgunsamkomu, sem hófst kl. 10 á laugardagsmorguninn. Fundarstjóri var Smári Hermannsson. Stefán Hermannsson hélt inngangserindi og bauð þátttakendur velkomna. Því næst hélt Jóhanna Stefánsdóttir fróðlegt erindi þar sem hún sagði frá börnum Jóhönnu Stefánsdóttur og Hermanns Þorsteinssonar og sagði síðan frá þeim hjónum Ragnhildi Sveinsdóttur og Stefáni Árnasyni. Þessi erindi túlkaði Gísli Hermannsson á ensku. Að því loknu stóðu þær Carole Forrest og Barbara Andersen upp og sögðu nokkur orð.
Að loknu hádegishléi, var farið í leiki undir stjórn Ragnheiðar Hermannsdóttur. Þar á eftir var frjáls tími, þar sem sumir fóru í sund en aðrir fóru og skoðuðu hesta, sem Hermann Ingason var með í nágrenninu.
Þá var komið að hápunkti ættarmótsins, sem var sameiginlegur kvöldverður og kvöldvaka eftir kvöldverð. Á matseðlinum var grillað lambakjöt ásamt meðlæti svo og grillaðar pylsur. Grillmeistari var Sigurgeir Birgisson. Að loknum kvöldverði var dregið fram hefti með söngtextum, sem sérprentað hafði verið að þessu tilefni og var sungið við raust langt fram eftir kvöldi.
Á sunnudaginn lauk ættarmótinu formlega og tóku menn þá saman föggur sínar og fór hver til síns heima. Menn voru almennt sammála um, að vel hefði til tekist. Var á mönnum að heyra, að áhugi væri á að halda ættarmót aftur eftir u.þ.b. 5 ár.
H.H.
Smellið hér til að skoða myndir frá ættarmótinu
|
|
Back | News Home
|
 |